149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Enn langar mig að vitna í Eyjólf Ármannsson lögfræðing og nú bið ég hv. formann utanríkismálanefndar að leggja við hlustir. Ég vitnaði í þennan ágæta mann þegar hæstv. utanríkisráðherra kom til fundar við okkur. Það var eins og hann kannaðist ekki við að hafa séð, og kannski hefur hann ekki gert það, þá umsögn sem þessi ágæti lögfræðingur lagði inn. Ég kannast heldur ekki við það að hún hafi verið rædd eða tilgreind af fleirum þeim sem eru meðmælendur þess að innleiða þessa gerð. Þess vegna væri ágætt að fá t.d. svar um þetta. Þar sem ég er í andsvari við hv. þingmann gæti ég í ræðu á eftir spurt hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur út í umsögn Eyjólfs Ármannssonar.

Hv. þingmaður spurði: Hvers vegna ekki að nota þennan rétt sem þarna er? Hann hefur verið lítið notaður. Það vill svo til að Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur segir á bls. 4 í álitsgerð sinni, með leyfi forseta:

„Alþingi á að hafna þingsályktunartillögunni og tilkynna það sameiginlegu EES-nefndinni. Slík málsmeðferð ógnar ekki aðild að EES-samningnum enda í fullu samræmi við ákvæði hans. Fyrir Ísland er slíkur ótti í EES-samstarfinu hættulegur.“

Ég hef nú stundum vitnað til þess og við fleiri hér inni að í 26. gr. stjórnarskrár Íslands er málskotsréttur forseta Íslands sem menn héldu lengi vel að væri upp á punt, en síðan hefur hann verið notaður með afbragðsárangri. Þá segir maður aftur: Hvers vegna ekki? Þessir þrír ágætu lögspekingar, bæði þeir sem oftast eru tilgreindir og sá sem ég tilgreini nú, nefna allir þennan möguleika fyrst: Senda málið til sameiginlegu EES-nefndarinnar og hafna pakkanum.