149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Þetta eru vangaveltur sem vert er að velta upp hvað myndi gerast ef svo illa vildi til að hér kæmi aftur ríkisstjórn sem vildi ganga í Evrópusambandið. Maður veltir líka fyrir sér hvort það sé þannig að núverandi ríkisstjórnarflokkar geri sér ekki grein fyrir þeim skrefum sem þeir gætu verið að taka með þessari keyrslu á þriðja orkupakkanum, hafandi þetta í huga.

Er kannski mögulegt að viljinn til að skoða málið í heild sé lítill vegna þess að menn geri sér grein fyrir því að sé heildarmyndin skoðuð þurfi þeir að gera það upp við sig og þurfi að tala um þann möguleika að orkan verði skyndilega orðin mjög auðleysanlegt viðfangsefni þegar kemur, sem verður vonandi aldrei, að einhvers konar viðræðum við Evrópusambandið um inngöngu þar inn, þá sé bara búið að taka upp orkustefnu Evrópusambandsins í íslensk lög? Við verðum farin að vinna eftir henni, orðin aðilar að þessu sambandi og stofnunum öllum, beint eða óbeint. Þar af leiðandi myndi það renna í gegn.

Mér kæmi ekki á óvart þó að einhverjir hugsuðu svona, en þetta er áhætta sem menn eru klárlega að taka. Ég tala ekki um ef menn leitast ekki við að finna út hver heildarmyndin kann að vera eftir nokkur ár þegar það er í boði. Þá fer maður aftur að velta fyrir sér hvort Vinstri græn leiki enn og aftur tveimur skjöldum þegar kemur að Evrópusambandinu og væntingum þeirra eða fólks innan þeirra raða að sækja þar um inngöngu.