149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vil þakka honum fyrir hversu ötull hann hefur verið við að greina lögfræðilegan þátt þessa máls sem skiptir verulegu máli og sérstaklega hvað varðar fyrirvarana sem ríkisstjórnin hefur sett einhliða, þ.e. ekki í samræmi eða í samráði við hinn samningsaðilann, sem er jú Evrópusambandið. Það er náttúrlega óvenjulegt ef maður setur þetta í samhengi við almenna samningagerð. Það er meginregla samningaréttar að báðir aðilar séu tiltölulega sáttir við samninginn og hafi sínar væntingar og hagsmuni af samningnum á jafnræðisgrundvelli. Þannig er grundvallarþáttur samninga að báðir aðilar uni vel við. Í þessu tilfelli er ágreiningur að því leytinu til að við viljum ekki undirgangast þessa raforkutilskipun öðruvísi en að setja einhverja fyrirvara sem er álitamál hvort komi til með að halda. Við í Miðflokknum teljum afar hæpið að þeir haldi.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann að því hvort hann þekki það úr sínu fyrra starfi sem sýslumaður til fjölda ára að stjórnvöld velji (Forseti hringir.) leið sem er ekki besta leiðin í svo veigamiklu máli sem þessu. Þekkir hann dæmi þess?

(Forseti (BHar): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörkin.)