149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:50]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir spurninguna. Nei, ég man ekki í augnablikinu eftir slíku dæmi. Hins vegar kemur alltaf upp sú grundvallarspurning ef menn setja lagalegan fyrirvara, hver sem hann er og hvar sem hann er, hvernig sem hann hljóðar: Hvert er gildi hans þjóðréttarlega? Bindur hann okkur eða bindur hann okkur ekki? Mun hann halda gagnvart viðsemjendum okkar á Evrópska efnahagssvæðinu? Er eitthvert hald í honum? Hvernig gæti reynt á hann? Það er grundvallarspurningin ef til kemur. Lítum á álitsgerð þeirra félaga, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts — maður er búinn að segja þessi nöfn svo oft að þetta hljómar svona og svona.

Þeir spyrja á bls. 34 og 35 í sinni margumtöluðu álitsgerð: Hvernig gæti reynt á þetta? Innleiðingin gæti leitt til þess, frú forseti, að fyrirtæki sem fer fram á að leggja hingað sæstreng og yrði hafnað af Orkustofnun gæti snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Það er þeirra álit. Svo segja þeir að lausnin sem hér er valin sé ekki gallalaus. Er gallinn sá að við fáum á okkur málssókn ef einhver vill leggja hingað sæstreng? Þetta er á bls. 34–35 ef einhver hefur misst af því. Þetta er sagt berum orðum í álitsgerð þeirra.