149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek heils hugar undir það með honum að það er mjög einkennilegt að ekki skuli vera hlustað á þá sem þekkja vel til málsins og hugmyndafræðinnar á bak við ákvæði eins og 102. gr. í samningnum.

Frumvörpum fylgja greinargerðir. Þar er hugmyndin á bak við lögin, við þekkjum þetta. Þetta er í raun og veru lögskýringargagn ef menn mistúlka ákvæði laganna, ef einhver ágreiningur verður um túlkun laganna fara menn í greinargerðina og reyna að finna út hver vilji löggjafans var í þeim efnum. Nákvæmlega það sama má segja um EES-samninginn. Menn eiga að leggja við hlustir þegar menn sem komu að samningsgerðinni fyrir Íslands hönd og þekkja hana út í gegn, eins og í þessu tilfelli fyrrverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, lýsa því hver hugmyndin hafi verið á bak við t.d. 102. gr. sem er samningnum mjög mikilvæg.

Þess vegna spyr maður eins og hv. þingmaður gerir réttilega: Hvers vegna horfa menn fram hjá þessu öllu? Hvers vegna er þetta keyrt svona áfram og menn vilja ekki fara þær leiðir sem samningurinn sjálfur leggur til? Fyrir því hafa aldrei komið nein haldbær rök sem auðvitað sáir fræjum tortryggni, að það séu einhverjir hagsmunir þarna á bak við sem menn meta (Forseti hringir.) meira en þá miklu þjóðhagslegu hagsmuni sem felast í því að fara lögformlegu leiðina.