149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég hef verið að velta upp spurningum um framhaldið, orkupakka fjögur, og furða mig svolítið á því að fylgjendur málsins skuli ekki vilja, ég ætla bara að nota gamalt orðatiltæki hér í þinginu, kíkja í pakkann, kíkja í fjórða pakkann til að sjá hvað þar bíður.

Ég beindi nokkrum spurningum um orkupakka fjögur og reyndar fimm til utanríkisráðuneytisins. Ég ætla að renna yfir þetta. Ég segi m.a.:

1. Óskað er skýrslu um innihald og réttaráhrif orkupakka fjögur og það sem vitað er um orkupakka fimm.

2. Sé tekið mið af orkupakka fjögur og mögulega fimm, hvaða áhrif eða breytingar þurfa að verða á rekstri eða hlutverki Landsvirkjunar með tilliti til lagaskyldu fjórða orkupakkans og þeim meginlínum sem hafa mótast um orkupakka fimm?

3. Svo virðist sem orkupakki fjögur hafi verið kynntur ríkisstjórn Noregs. Hefur hann verið kynntur eða sendur íslenskum stjórnvöldum?

4. Hver er aðkoma Íslands að vinnu við innleiðingu fjórða orkupakkans í EES-rétt?

5. Hvaða fyrirvara gerir Ísland í tilviki fjórða orkupakkans?

6. Hverjar eru helstu breytingarnar í fjórða orkupakka? Hvaða áhrif hafa þær á íslenskan raforkumarkað?

7. Hverjir eru stærstu kostnaðaraukningar fyrir íslenska neytendur til að fullnægja þeim skyldum sem orkupakki fjögur hefur í för með sér?

Ég tel að þetta séu allt spurningar sem eiga enn þá rétt á sér til viðbótar við þær 17 eða 18 sem ég hef skrifað niður í framhaldinu eftir því sem umræðunni vindur fram. En svörin sem komu við þessum spurningum voru mjög almenns eðlis. Fyrsta atriðinu þar sem óskað er eftir skýrslu og greinargerð er í rauninni ekki svarað. Það er ekkert fjallað um, sýnist mér, um áhrifin á Landsvirkjun. Það er ekkert talað um hvaða vinna sé í gangi o.s.frv. Það kemur hins vegar fram í svari ráðuneytisins að sérstakur starfshópur hafi verið settur af stað um hagsmunagæslu og samráð varðandi innleiðingu fjórða orkupakkans. Nú má rekja þetta mál aftur til nóvember 2016, í það minnsta, þar sem lögð var fram tillaga að nýrri löggjöf á sviði orkumála undir yfirskriftinni Hrein orka fyrir alla Evrópubúa eða Clean Energy for All Europeans. Orkupakkinn breytir löggjöfinni töluvert mikið. Það er því ósköp eðlilegt að við veltum þessu fyrir okkur, við sem höfum áhyggjur af málinu og spyrjum spurninga. Auðvitað hefði maður ætlast til þess að það fengjust einhver svör sem hald væri í við þessum spurningum, ekki almennt orðalag. En þetta er það sem ráðherrann lætur senda okkur. Ég ætla að leyfa mér að gera athugasemdir við að þetta séu svörin. Ég hygg að við bætum þá bara við spurningalistann sem þarf að svara.

Ég nefndi áðan, virðulegi forseti, og velti því upp hvort orkupakki fjögur kallaði á annan hring af umræðu um stjórnskipulegan fyrirvara eins og hér hefur verið vegna orkupakka þrjú. Spurningin sem ég ætla að bæta við núna, af því að það er lítill tími eftir, er: Hvað er í honum sem kallar á stjórnskipulega fyrirvara, ef svo er?

Mér finnst ástæða til að spyrja að þessu núna vegna þess að við erum að ræða forvera fjögur, þriðja orkupakkann. Allt hangir þetta saman. Þess vegna eiga þessar spurningar að mínu viti rétt á sér. Það er vont að hingað komi enginn af þeim sem bera ábyrgð á málinu og svari.

Til viðbótar má velta því upp að enn hefur lítið af svörum komið við því hvort menn telji sig býsna trygga varðandi það að ekki verði farið í mikil málaferli af hálfu einkaaðila, lögaðila eða einstaklinga sem munu kannski vilja leggja hér sæstreng.