149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:20]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður velti í ræðu sinni áðan upp spurningunni: Hvað er það í orkupakka fjögur sem kallar á stjórnskipulegan fyrirvara? Þetta dregur fram hina augljósu spurningu: Hvers vegna taka menn sér ekki þann tíma sem nauðsynlegur er til að kryfja orkupakka fjögur sem nú liggur fyrir, átta sig á því hvað er þar sem spilar með beinum hætti saman við orkupakka þrjú og er til fyllingar honum?

Sérstaklega hnaut ég um setningarbrot úr lýsingu á orkupakka fjögur sem var sagt frá í frétt sem ég held að hafi birst í Morgunblaðinu um helgina þar sem var talað um að eitt af markmiðum orkupakka fjögur væri að útvíkka valdheimildir ACER og styrkja þær. Ef raunin er sú að þetta sé eitt af markmiðum orkupakka fjögur — af því að við upplifum þetta dálítið eins og á færibandi þar sem málin eru tiltölulega snemma komin inn í einhvern einstefnuloka — og með í huga þær áhyggjur sem við höfum af málinu hvað fullveldisframsal varðar og þar fram eftir götunum spyr ég: Telur hv. þingmaður ekki nauðsynlegt að stíga eitt skref til baka og gefa sér tíma til að greina hvað raunverulega felst í þessari stöðu?