149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í raun ekki. Varðandi fyrrverandi ráðherra Sighvat Björgvinsson og fleiri þykir mér persónulega rétt að við gaumgæfum það sem þeir láta frá sér fara, hafandi verið hér í upphafi eins og við höfum rætt um. Þegar menn sem hafa þessa reynslu, hafa tekið þátt í innleiðingu orkupakka eitt og tvö, vara við númer þrjú finnst mér full ástæða til að staldra við og hlusta.

Mikið af þeim ákvörðunum sem við alþingismenn tökum eru byggðar á ráðgjöf og/eða upplýsingum sem við heyjum okkur, vegna þess að ekki er hægt að ætlast til þess að við séum sérfræðingar í öllum málum sem koma fyrir þingið. Því segi ég aftur að þegar menn með þessa reynslu, þennan bakgrunn eins og Sighvatur Björgvinsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Tómas Ingi Olrich, Hjörleifur Guttormsson, Ögmundur Jónasson og Davíð Oddsson stíga fram og vara við þessari samþykkt finnst mér dónaskapur að hlusta ekki. Mér finnst sjálfsagt að sýna þessum ágætu heiðursmönnum þann sóma að fara alla vega yfir það sem þeir hafa að segja og taka síðan sjálfstæða ákvörðun. Ég segi það ekki að auðvitað þurfti maður eins og Sighvatur Björgvinsson ekki að sannfæra þann sem hér stendur um þetta. Hins vegar finnst mér þetta rök í málinu fyrir þá sem við erum að tala við. Við erum að tala við fólkið í landinu sem margt hvert á í erfiðleikum með að skilja þetta mál af því að það hefur verið illa kynnt. Hví þá ekki (Forseti hringir.) að leiða fram skoðanir manna sem kunna, þekkja og vita?