149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Orkumálin hafa verið mikið til umræðu á Alþingi undanfarið og er það vel af því að orkumálin eru gríðarlega mikilvæg. Ef við förum rétt með þessa mikilvægu auðlind okkar getur hún verið enn frekari undirstaða velferðar í íslensku samfélagi en hún er í dag, eins og sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan og fleiri mikilvæg mál. Þess vegna er mikilvægt að taka umræðuna, það er bara spurning hvernig við setjum fókusinn í umræðuna, hvar við höfum hann og um hvað við ræðum.

Við höfum miklar og stórar áskoranir í orkumálunum sem við þurfum að ræða, sem er þá dreifing raforkunnar, sem hefur kannski ekki gengið nógu vel, og svo hefur sú sáttaumleitan sem fara átti fram með rammaáætlun ekki alveg gengið eftir.

Nú er verið að vinna að orkustefnu og er gríðarlega mikilvægt að sú stefna nái fram að ganga og að við náum að móta öfluga og mikilvæga stefnu í auðlindanýtingu okkar, af því að orkumálin eru stærsta og mikilvægasta lausnin í loftslagsmálunum. Öll Evrópa vinnur að þeim málum núna, og reyndar heimurinn allur og fjárfestar og annað slíkt. Við verðum að ræða þessi tvö stóru mál hérna, en ekki fókusera bara á litlu málin eða að ræða þessi mál út frá röngum forsendum. Við eigum að ræða það sem skiptir máli í þessu, þ.e. að mikilvæg auðlindanýting í hreinni orku skiptir mestu máli í loftslagsmálum. Við höfum mörg tækifæri hér á landi sem við verðum að fara að nýta, eins og rafvæðingu hafna, dreifingu raforku til að geta ýtt undir orkuskiptin um allt land og vetnisframleiðslu og annað sem hægt er að selja skemmtiferðaskipum og öðrum í siglingum og þess háttar. Þangað skulum við fara með umræðuna og ræða það sem máli skiptir.