149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[11:29]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir andsvarið. Ég hef einmitt tekið eftir því núna, eftir að hafa fylgst með fréttum annað slagið í fríi sem ég var í, að umræðan hefur dýpkað. Það eru að koma fram atriði sem þurfa að koma fram og fleiri atriði þyrftu að koma fram og umræðan hefur dýpkað á þeim tíma sem hefur verið til umræðu á þinginu.

Til að svara spurningunni sé ég fram á, ef þessi pakki verður innleiddur, að rafmagn hækki hugsanlega eða nær örugglega. Það hefur náttúrlega mikil áhrif á heimili og fyrirtæki í landinu og illa líst mér á það. Raforkuframleiðsla hefur verið í okkar höndum. Þetta er einn kjarninn í okkar íslenska samfélagi, að við framleiðum rafmagn með hreinni orku á okkar eigin forsendum. Það er eiginlega það grunnstef sem sá sem hér stendur og við sem höfum verið á móti þessari innleiðingu stöndum fyrir að verði áfram. Við höfum verið að byggja upp raforkuöryggismál. Á fjögurra ára fresti er unnið að því í þingsályktunum að bæta raforkutengingar um allt land. Gengur frekar hægt en við erum þó að gera það á okkar eigin forsendum og það eigum við að gera áfram.