149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:42]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir prýðissvör við þessum spurningum. Þá kemur mér í hug, af því að þingmaðurinn nefndi kynningu og útkomu úr skoðanakönnunum og hvað þjóðinni finnst um þetta mál, þá spyr það fólk sem ég hitti og heyri í og sem fylgist með: Um hvað fjallar málið? Það virðist oft vera tekin afstaða til málsins á grundvelli þess hver heldur bestu ræðuna eða hver kemur best fyrir sig orði en ekki um hvað málið snýst. Það er meira útlit en innihald málflutningsins.

Þess vegna er ég algerlega sammála þingmanninum í því að kynning á málinu til handa þjóðinni, fyrir fólkið í landinu, er algjörlega nauðsynleg svo að við sem störfum í umboði þjóðarinnar finnum hvernig þjóðinni líst á málið ef hún er upplýst um það. Hér á fyrri stigum málsins hefur verið nefnd salamípylsuaðferðin. Við erum að verða vitni að henni núna og það er kannski akkúrat það sem þeir, sem vilja fá svona mál í gegn, nota til þess að meðvitundin verði minni um afgreiðslu málsins.

Við höfum átt mjög gott samstarf í gegnum EES-samninginn en við þurfum líka að átta okkur á því að við erum sjálfstæð þjóð og þurfum að standa með okkur sjálf. Það gerir það enginn fyrir okkur. Hvernig gæti þingmaðurinn séð fyrir sér að sú kynning myndi fara fram ef við værum að tala um að við fengjum frest á málinu, alla vega til hausts? Það er ekki langur tími til hausts. Hvernig gætum við kynnt þjóðinni málið og komið henni betur inn í það?