149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:10]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir andsvarið. Hann vék undir lokin að könnunum um afstöðu almennings, fólks almennt til þessa orkupakka. Það hefur nú mest borið á tveimur könnunum sem mér eru kunnar. Það er annars vegar könnun fyrirtækisins MMR sem hefur slíkar kannanir með höndum og síðan var netkönnun á vegum útvarpsstöðvar.

Ég ætla bara að leyfa mér að segja að ég legg þessar tvær kannanir alls ekki að jöfnu vegna þess að í könnunum af þessu tagi er mikilvægt að fylgt sé leikreglum líkindafræðinnar og æðri tölfræði. Þá er fyrsta atriðið það að úrtakið sé valið af handahófi. Það er algjör forsenda þess að mark sé takandi á könnunum af þessu tagi. Þau fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í gerð skoðanakannana vinna náttúrlega á grundvelli þessarar meginreglu.

Síðan eru alls kyns kannanir þar sem fólk velur sér sjálft inn í úrtakið, þ.e. maður getur valið það sjálfur hvort maður tekur þátt í könnuninni. Þetta gerir könnunina óvísindalega, reyndar óvísindalega með öllu. Þá er hún orðin meira samkvæmisleikur og ekkert við það að athuga, skemmtilegt, og hefur kannski eitthvert vísbendingargildi í för með sér. Með öðrum orðum, síðasta könnun sem mér er kunnugt um að hafi verið gerð á vísindalegum forsendum er könnun MMR og hún sýndi að 62% svarenda lögðust gegn samþykkt orkupakkans.