149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður gæti haldið að með því að halda fundi að næturlagi og fram á morgun sé forseti Alþingis að reyna að lágmarka áhrifin á starfsáætlun Alþingis. Víst er að við Miðflokksfólkið höfum ekki talið það eftir okkur að tala að næturlagi. Við höfum ekkert sérstaklega verið að trufla þingstörf á þeim tíma. Eftir því sem maður hefur séð á fjölda þingmanna annarra flokka í þinghúsinu höfum við heldur ekki raskað nætursvefni mjög margra, enda ekki til þess stofnað.

Ég er enn þá alveg blankur í því máli hvers vegna ríkisstjórnarflokkunum og fylgifiskunum er svona mikið í mun að klína þessu máli í gegnum þingið í óþökk meiri hluta þjóðarinnar á þessum hraða sem við höfum varað við ítrekað, svo vanbúið sem málið er, sem við höfum bent á, með fyrirvara sem eru ekki túkalls virði, sem við höfum bent á, óafturkræft, sem við höfum bent á.

Ég hef í sjálfu sér ekki svar við því hvers vegna menn leggja slíkt ofurkapp á að koma slíku máli í gegnum Alþingi að næturlagi á ógnarhraða. Mér er það ekki ljóst. Mér er heldur ekki ljóst hvers vegna menn vilja troða þessu máli í gegnum þingið í óþökk þjóðarinnar, vitandi það að í september nk. verður tekið fyrir í Noregi mál sem varðar það hvort innleiðing þriðja orkupakkans þar stenst norska stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Stjórnlagadómstóll mun taka það fyrir. Mér er óskiljanlegt af hverju menn, af þeirri ástæðu einni, (Forseti hringir.) bíða ekki með þetta mál fram á haustið og gaumgæfa það betur.