149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta þarf ekki að hafa mikil áhrif nema til tekjuaukningar fyrir raforkufyrirtækin, svo framarlega sem nægilegur hluti af raforkunni er ekki vottaður, þ.e. ekki gefin út vottorð og seld til útlanda fyrir svo mikinn hluta af henni að það valdi skorti innan lands. Það má ráða af svari ráðherra, sem ég fer nánar út í í síðari ræðum, að hingað til virðist ekki hafa vera skortur á því að innlend orkusölufyrirtæki geti vottað endurgjaldslaust, flestöll, til íslenskra fyrirtækja sem eftir því leita. En það á auðvitað ekki við um stóriðjuna. Hún er það stór kaupandi að hún situr uppi með það að geta ekki fengið þessi vottorð endurgjaldslaust og þarf, ef hún þarf að sýna uppruna raforku sinnar, að keppa á markaði við fyrirtæki erlendis um vottorðin og greiða fyrir þau. Það þýðir bara eitt. Það þýðir hækkun á raforkuverði til þessara fyrirtækja. Það eru þessi áhrif sem ég er að reyna að kanna hver eru og hugsanleg áhrif til framtíðar, ef þetta eykst nú.

Ef kemur til lagningar sæstrengs hingað erum við náttúrlega alfarið komin inn í þessa hringiðu, sölu á raforkunni ásamt upprunaábyrgðum, um leið og íslensku fyrirtækin eru farin að selja þetta á hærra verði annars staðar. Þetta hefur beina tengingu við innleiðingu þriðja orkupakkans, þ.e. hugmyndafræðin og áhrifin sem geta orðið í kjölfar innleiðingar á svona reglugerð. Þetta málefni er svona litli bróðir þriðju orkutilskipunarinnar.