149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir hans athyglisverðu ræðu. Það var athyglisvert að hlusta á útdrátt hans úr skýrslu til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um framtíð orku í Evrópu, þar sem hann fór yfir aðgerðaáætlun sem Evrópulöndin hyggjast setja af stað til langrar framtíðar. Og framtíðarsýnin er heldur skýr. Ég held að hv. þingmaður hafi verið að benda á það. Auðvitað er það hið góða markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka hlut endurnýjanlegrar orku og sjá Evrópu fyrir raforku.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann varðandi þá framtíð sem birtist í skýrslunni. Nú er endurnýjanlega orku og mikið magn af orku helst að finna á útjöðrum Evrópu. Þar á ég við vindorku og fallorku í Noregi, á Íslandi og eyjunum í kring, Stóra-Bretlandi, Írlandi, en ekki kannski í Mið-Evrópu þar sem kolaorkuverin eins og í Þýskalandi og kjarnorkuverin víða um Evrópu, í Frakklandi og annars staðar, eru allsráðandi.

Getur hv. þingmaður lýst þessu þannig að Evrópa hyggist í framtíðinni, ef má orða það þannig, stinga í samband í þessum löndum sem ég nefndi, Noregi og Íslandi og þeim löndum sem hafa miklu meiri aðgang að hreinni orku og í meira magni en í Mið-Evrópu?