149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni andsvarið. Það er nú svo undarlegt að nú koma jafnt og þétt ný atriði efnisleg inn í þessa umræðu sem staðið hefur yfir núna í allmarga sólarhringa, dag og nótt. Ef menn hefðu nú skynsemi til að taka sér nokkra daga í að fá svigrúm til að vinna málið og ígrunda er ég nokkuð viss um að fjöldi þeirra atriða sem upp kæmi, sem þarfnaðist ígrundaðri skoðunar en þegar hefur verið flötur á að vinna, myndi margfaldast. Verið er að vinna þessi atriði og þau koma upp jafnt og þétt á meðan umræðan á sér stað hér á þingi.

Þegar stór hluti þingheims hefur það fyrst og fremst fram að færa að nú sé ástæða til að stöðva umræðuna, er ekki líklegt að sá hópur sé að skoða atriði sem nauðsynlegt er að komast til botns í á sama tíma. Sá hópur er væntanlega fyrst og fremst þannig stemmdur að hann reynir að bíða af sér vandamálið.

Ég held að atriði eins og þetta, atriði eins og samþykki ráðherraráðsins á fjórða orkupakkanum, atriði eins og fréttir af fullfjármögnuðum áætlunum um lagningu sæstrengs og svo margt annað, séu þeirrar gerðar að það sé algjört glapræði að fresta málinu ekki að lágmarki (Forseti hringir.) um nokkra daga til að menn geti náð utan um það. En auðvitað væri eina vitið að fresta því til hausts.