149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:17]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Hann spurði í fyrsta lagi hvort hægt væri að stíga skrefið til baka. Ég held að það sé afskaplega erfitt. Það búið að innleiða þetta og er orðið að lögum í landinu. Ég nefndi það í gær að þetta eru lög frá 2008, um upprunaábyrgð á raforku. Þar er verið að innleiða reglur Evrópusambandsins allt frá 2001 og markmiðið er að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í Evrópu.

Markmiðið er í sjálfu sér göfugt en ekki er víst að aðferðin henti öllum aðilum samningsins. Ef við yrðum tengd Evrópu er ekki víst að þetta kæmi neitt afskaplega vel út fyrir raforkukaupendur hér innan lands ef þeir þyrftu að keppa við raforkukaupendur erlendis, bæði fyrir raforkukaupendur og líka kaupendur vottorðanna. Það er ekki víst, eins og ég kom aðeins inn á áðan.

Hv. þingmaður spurði um söluna. Sami háttur er hafður á hjá Orkusölunni, ef ég vitna í svar hæstv. ráðherra, sem selur ekki upprunaábyrgðir heldur hefur frá 2015 látið upprunaábyrgðir fylgja með fyrir allan sinn markað. Þetta er staðan hjá Orkusölunni. Staðan hjá Orku náttúrunnar er samkvæmt svari ráðherrans sú, og samkvæmt upplýsingum frá Orku náttúrunnar, að árlegar tekjur vegna sölu upprunaábyrgða hafa verið 20–60 millj. kr. Á þessu ári, 2019 líklega, gerir tekjuáætlun ráð fyrir sölu upprunaábyrgða að verðmæti 150 millj kr. Þetta er verulega að aukast og upprunaábyrgðir fylgja með sölu raforku fyrirtækisins til almennra notenda. Það er sem sagt enn þá til afgangur handa almennum notendum.