149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir áhugaverða ræðu. Ég ætla byrja á því sem þingmaðurinn kom inn á í blálokin í síðasta andsvari sem sneri að því að mögulega væri stóriðju hér heima sama um hvernig upprunavottorðin lægju. Ég man að a.m.k. eitt álveranna hér heima stærði sig af því fyrir um tíu árum síðan, sennilega rúmum, að álframleiðsla þess væri grænasta ál í heimi og þætti með því albesta sem gerðist í umhverfislegu tilliti.

Álið er oft kallaður græni málmurinn, m.a. í ljósi þess hversu auðvelt er að endurvinna álið og hversu hátt hlutfall þessa áls sem framleitt hefur verið í heiminum er enn þá í notkun eftir ítrekaða endurvinnslu. Hver er afstaða þingmannsins til þess? Telur hann að mögulega sé íslensk stóriðja að skjóta sig í fótinn ef lítið tillit verður tekið til þeirra sjónarmiða sem snúa að hinni hreinu orku sem félögin hafa notað og notið alla tíð, leyfi ég mér að segja? Gæti verið áhætta í því fólgin, að fyrirtækin gætu tapað markaðsstöðu eða markaðsforskoti sem þau hafa í dag ef upprunavottorð verða seld frá raforkubirgjunum og framleiðslan verður skilgreind á grundvelli kjarnorku og kola, svo dæmi sé tekið?