149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á orkupakka fjögur, sem ég tel fulla þörf á og við höfum komið inn á í ræðum okkar. Ég hjó sérstaklega eftir því í viðtali við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur á netmiðlum í dag, held ég, þegar hún sagði að skoðun hennar væri sú að aðgreina ætti þessa pakka, taka hvern pakka fyrir sig.

Ég er algerlega ósammála því. Ég held að nauðsynlegt sé að fara vandlega yfir orkupakka fjögur áður en orkupakki þrjú verður, væntanlega, samþykktur. Við hefðum viljað sjá undanþágu frá honum og vonandi verður það. Kannski kemur á daginn að stjórnvöld átta sig á síðustu metrunum á því hversu mikið er í húfi og hlusta á eitthvað af ábendingum okkar sem við höfum komið með — á málefnalegan hátt, ég tek það fram. Það er nú annað en sumir stjórnarþingmenn sem hafa komið með fullyrðingar sem standast ekki. Ég nefni t.d. fullyrðingar um að raforkuverð hafi ekki hækkað við innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Það er rangt. Verðið hefur hækkað heilmikið og við höfum sýnt fram á það. Ég hef gert það bæði í ræðu og riti.

En alla vega er orkupakki fjögur þannig að hann eflir enn frekar hið yfirþjóðlega vald. Það er mjög líklegt að þar verði spurningin um stjórnlagaþáttinn, þ.e. hvort þetta standist stjórnarskrá eða sé andstætt henni, háværari og sú krafa ríkari að það verði skoðað nánar og ofan í kjölinn. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það er ótrúlegur málflutningur hjá stjórnarliðum að ætla sér að fresta því. Það má spyrja sig hvort það sé ekki andstætt stjórnarskrá og í raun og veru stjórnarskrárbrot að ætla að fresta því að taka á þeim þætti þar til sæstrengur er kominn. Ég held að það sé álitaefni hvort það sé í raun og veru samkvæmt stjórnarskránni að gera slíkt.

En það er sem sagt orkustofnun Evrópusambandsins, sem við höfum nefnt og er nefnd ACER, sem fær aukin völd í orkupakka fjögur. Framkvæmdastjórnin á svo að ástunda mun strangara eftirlit með þessari kerfisáætlun í raforkumálum og bæta orkunýtingu og stuðla að orkuskiptum.

Stefnan er sú að það verði hnökralaust net milli landa, tengingar milli landa, það er meginstefnan, sem á síðan að tryggja að orkan streymi vandræðalaust frá þeim svæðum þar sem orkuverð er lágt yfir á svæði þar sem orkuverð er hærra. En þannig er staðan alls ekki núna. Það þarf líklega að þrefalda núverandi aðflutningsgetu á milli landa Evrópusambandsins til að svo verði.

Niðurstaðan verður því hið samræmda evrópska orkuverð sem verður síðan mun hærra en Íslendingar hafa nokkurn tímann séð. Þar sjáum við þá gríðarlegu hagsmuni okkar að hér haldist raforkuverð lágt. Með því að innleiða þessa tilskipun er mikil hætta á því að svo verði ekki.

Maður veltir fyrir sér: Hvers vegna eigum við að vera að gefa því undir fótinn að vilja taka upp hið sameiginlega markaðskerfi og verða þátttakendur í því gegn því að tengjast einhverjum sameiginlegum markaði? Það gerum við með tilskipuninni, við gefum því undir fótinn að við viljum vera þátttakendur í því. Þetta er staðreynd. Þeir sem greiða atkvæði sitt með því gera það. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég sé að tíminn líður hratt og verð að halda áfram með þessa ræðu seinna. Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.