149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni andsvarið. Maður hefur ákveðinn skilning á því að formenn og fyrirsvarsmenn flokka, t.d. Viðreisnar, sem eru áfram um aðild Íslands að Evrópusambandinu fagni því mjög að sem minnst sé rætt um efnisatriði málsins heldur verði það keyrt í gegn sem áframhaldandi æfingabúðir okkar í að aðlaga okkur regluverki Evrópusambandsins. Yfirlýsing hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur vakti auðvitað undrun, að fjórði orkupakkinn skipti bara engu máli, það væri ekkert innlegg í þessa umræðu um innleiðingu þriðja orkupakkans af því að þetta væru bara pakkar og afgreiddur væri einn í einu.

Þetta er afstaða sem stenst enga skynsemisskoðun. Auðvitað kíkja menn í fjórða pakkann ef þeir eru að velta fyrir sér hvort þeir ætla að taka við þriðja pakkanum þegar það liggur fyrir að samfella er þarna á milli og vitað að í fjórða orkupakkanum eru menn að bregðast við ákveðnum hlutum sem þótti vanta upp á og ekki nást fyllilega fram í þriðja orkupakkanum, m.a. með því að auka og styrkja valdsvið ACER stofnunarinnar. Þetta liggur allt fyrir, enginn feluleikur með það.

Til að svara spurningu hv. þingmanns um hvers vegna flokkarnir sem standa að þessari innleiðingu eru ekki áhugasamari um að ræða öll þau atriði sem upp hafa komið og öll þau gögn sem ættu að vera lykilgögn í innleiðingarferli þessarar reglugerðar eða samþykktarferlinu, hef ég sagt það áður í pontu að því miður bendi margt til þess að þingmenn þessara ágætu þriggja ríkisstjórnarflokka hugsi sem svo að illu sé best aflokið, það sé best að leyfa gusunum að ganga yfir sig á meðan þessir Miðflokksþingmenn (Forseti hringir.) nenna að standa hér og berjast í þessu. Svo verði þetta vandamál vonandi horfið og þeir þurfi ekki að huga að málinu aftur í bráð.