149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni andsvarið. Það verður auðvitað fátt um svör hjá mér þegar svona er spurt því að maður verður auðvitað að reyna að bera fyrir sig einhverju sem væri hægt að kalla upplýst gisk varðandi hvernig stendur á þessu.

En það er þannig að þá sólarhringa sem umræðan hefur staðið hefur eitthvað nýtt komið fram sem raunverulegur burður er í, sem raunverulega skiptir máli á hverjum degi. Enn man ég ekki til þess að neinu þeirra stóru atriða sem komið hafa fram síðan umræðan hófst í síðustu viku hafi verið svarað með neinu sem heldur. Allt það sem snýr að hinum meintu fyrirvörum er þeirrar gerðar að maður veit ekki alveg hvort maður á að hlæja eða gráta.

Ég ætla að leyfa mér, til að ramma inn fáránleika þess kjarnaatriðis sem virðist hafa verið ákvörðunartökuatriði hjá mjög mörgum, að vitna til þess sem héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson skrifaði í gær. Þar er héraðsdómarinn að bregðast við orðum forsætisráðherra þar sem forsætisráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Þá eru allir lögfræðingar sammála um það að engin skylda verði leidd af orkupakkanum um að heimila lagningu sæstrengs milli Íslands og annars EES-ríkis …“

Héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson svarar því til, með leyfi forseta:

„Ég treysti mér ekki til að tala fyrir munn allra lögfræðinga eins og forsætisráðherrann gerir hér, en tel rétt og skylt að undirstrika eitt atriði: Fyrirvarar Alþingis munu engu skipta þegar búið verður að fjármagna þennan sæstreng (hvort sem það verður innlent eða erlent fyrirtæki sem gerir það). Ástæðan er sú að ef íslenska ríkið reynir þá enn að standa í vegi fyrir því að strengurinn verði lagður mun verða höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi. Íslenska ríkið mun augljóslega tapa því máli þar sem orka er vara, samanber fjórfrelsisákvæðið um frjálst flæði á vörum.“

Ég held (Forseti hringir.) að við förum fljótlega að taka þessa fyrirvaraumræðu (Forseti hringir.) út af borðinu.