149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti, mjög svo. Hv. þingmaður vék í ræðu sinni að fyrirtæki sem heitir, og það er bara til á enskri tungu, herra forseti, svo að ég verð að fara með það þannig, Atlantic SuperConnection.

Það segir á heimasíðu þess fyrirtækis að það hafi í gegnum nýlega breytt pólitískt landslag á Íslandi komið upp og viðhaldið sterku sambandi við íslenska ráðherra. Þar segir einnig að þverpólitískur stuðningur fyrir hina stóru tengingu, superconnection, vaxi sífellt.

Það segir líka í nýlegri fréttatilkynningu frá því sama fyrirtæki að búið sé að útnefna sérstakan yfirmann — á ensku CEO — að orkuþróun sem muni leiða starf sem miði að því að leggja 1.500 km háspennukapal frá Íslandi til Bretlands.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi vitað af þeirri þróun og hvort hann telji líklegt að menn standi í slíkum stórræðum og gefi út svona yfirlýsingar ef þeir eru ekki komnir á fullt við (Forseti hringir.) að undirbúa einmitt lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands.