149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:32]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er mikilvægt að skýra þetta mál. Það er mikilvægt vegna þess máls sem við erum að ræða, þ.e. þriðja orkupakkann, til varpa frekara ljósi á hann og varpa frekara ljósi á viðhorf þessarar ríkisstjórnar til málsins. En þetta er líka áhugaverð spurning. Það væri áhugavert að fá svör við þeim spurningum sem hv. þingmaður spyr með tilliti til samrunakenningarinnar sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hefur varpað fram fyrr í umræðunni. Hún gengur út á að stjórnarflokkarnir, ef ég hef skilið rétt, séu smátt og smátt að renna saman í einn flokk. Ætli Framsóknarflokkurinn sé þá ekki hlutlausa efnið í þeirri blöndu, uppfyllingarefnið, en úr hinum tveimur verði einhver blanda sem mér líst ekkert allt of vel á hvernig muni líta út því að þar virkjast ekki það besta úr hvorum flokki fyrir sig heldur kannski lakari eiginleikarnir.

Ég hafði hugsað mér, herra forseti, að verja eins og einni ræðu í að velta fyrir mér samrunakenningu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar en fyrst vildi ég gjarnan heyra hv. þingmann gefa mér fleiri vísbendingar sem kynnu að nýtast mér í að móta útgáfu mína af þeirri kenningu.

Hvað sem því líður er mikilvægt fyrir umræðuna um þriðja orkupakkann að fá á hreint hvernig sambandinu er háttað milli ríkisstjórnar Íslands og atlantshafsofurtengifélagsins. Það myndi segja sína sögu um hversu líklegt er að af því verkefni verði og hugsanlega setja aðkomu ríkisstjórnarinnar að þriðja orkupakkanum í nýtt ljós.