149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að segja að hugurinn hvarflar aðeins til baka, í Kastljóssþátt í sjónvarpinu þar sem sá sem hér stendur sat ásamt hæstv. utanríkisráðherra. Hæstv. utanríkisráðherra var þar nestaður og vopnaður talpunktum og margfrægu lögfræðiáliti Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar prófessors. Hann var býsna höstugur í máli við stjórnanda þáttarins og heimtaði að hann læsi ekki bara hluta af álitsgerðinni heldur hana alla og var á honum að skilja að þarna væri sannleikann í málinu að finna.

Ég held að það hafi verið eftir þennan sjónvarpsþátt sem talið var nauðsynlegt að fá áréttingu, svokallað áréttingarbréf, frá þessum tveimur góðu fræðimönnum svo að skoðanir þeirra féllu betur að skoðunum utanríkisráðherra. Þetta segi ég með mikilli virðingu fyrir fræðimannsheiðri þeirra beggja.

En málið er að það er rétt sem hv. þingmaður sagði: Nú þyrfti ríkisfjölmiðilinn að nota brot af þeim 4.000 milljónum sem við borgum til hans á hverju ári til að blása jafnvel í annan þátt um sama efni, vegna þess að fram hafa komið á undanförnum dögum og nóttum nýjar upplýsingar í málinu, ný lögfræðiálit sem ekki fengu náð fyrir augum utanríkisráðuneytisins á sínum tíma. Og spurning mín til hv. þingmanns er: Finnst henni ekki rétt að skorað sé á Ríkisútvarpið að gera einmitt þetta, uppfylla samfélagslegt hlutverk (Forseti hringir.) sitt með því að leiða hlutlæga umræðu um þetta stóra mál og kynningu fyrir þjóðina?