149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:46]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við eigum alveg klárlega að fresta pakkanum fram til haustsins og jafnvel lengur. Ég vil í rauninni á þessum tímapunkti ekki tímasetja hversu lengi við eigum að fresta þriðja orkupakkanum. Ég vil jafnvel halda því fram að við eigum að fresta honum eins lengi og þarf eða þar til við erum komin með einhvern sameiginlegan grundvöll sem þjóðin getur sætt sig við.

Hv. þingmaður ræddi upplýsingar frá Ögmundi Jónassyni um að orkupakki eitt og orkupakki tvö hefðu farið nánast óræddir í gegnum þingið. Ég segi fyrir mína parta að við fáum oft gerðir inn í nefndirnar okkar þar sem við fáum vissulega mjög góða og vandaða kynningu á málum en þau eru oft flóknari en svo að við hreinlega höfum tíma til að setja okkur inn í þau öll. Svo leyfum við okkur að hlusta á varnaðarorð fólksins úti. Ég vil sérstaklega þakka þeim hópi fólks sem vakti okkur gagnvart þessu tiltekna máli. Ég held að það sé alveg hárrétt að ef það hefði ekki sett sig í samband við okkur með staðreyndir og rök hefði málið hugsanlega farið í gegnum þingið órætt.

Svo er fólk hissa á því að við viljum gjarnan fá upplýsingar um það sem á eftir kemur, orkupakka fjögur og jafnvel orkupakka fimm. Við viljum vanda til verka og það er það sem við erum að gera hér. Þess vegna erum við að ræða þessi mál.