149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:50]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Svo byrjað sé á þessum rangfærslum: Í fyrstu var það nú svo að við settum spurningarmerki við þá fyrirvara sem voru nefndir og því var haldið fram að það væri alger vitleysa hjá okkur að halda því fram að það væru rangfærslur. En síðan kom á daginn í svörum í þingsal að fyrirvararnir voru kannski ekki eins lögbundnir og best væri að hafa slíka fyrirvara. Nefnd voru orð eins og yfirlýsingar og fréttatilkynningar og ég veit ekki hvað og hvað. Það var það fyrsta.

Síðan er næsta atriði, þ.e. þegar við höfum haldið því fram að mögulega geti falist valdaframsal í því að vera ekki með góðan grunn í áframhaldandi ferli. Það get ég þá tengt inn í þessa hugmynd okkar um að best sé að senda orkupakka þrjú fyrir sameiginlegu EES-nefndina til þess að setja inn fyrirvara sem eru það vandaðir að þeir koma ekki aftan að okkur síðar með tilheyrandi skaðabótamálum, líkt og við virðumst vera að horfa upp á í Noregi. Þar voru settar átta fyrirvarar og það er ekki bara svo að þeir hafi ekki haldið, til þeirra hefur ekkert frést, svo það sé sagt.