149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get svo sem alveg tekið undir það. Ég hef vitnað til þess að hæstv. forseti hljómaði ekki sannfærandi þegar hann flutti þetta mál á sínum tíma. Alls ekki. Hann hljómaði ekki sannfærður. Málið er hins vegar að mönnum lá einhver reiðinnar býsn á, m.a. til að klára málið fyrir 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins — sem ég óska þeim til hamingju með — svo menn þyrftu ekki að fara með þennan pakka í veisluna. En nú fór það svo, menn þurftu að fara með pakkann í veisluna. Ég hef reyndar ekki heyrt af veisluhöldum, hvort menn hafi hitt þar fyrir þá flokksmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru alveg sáróánægðir með þetta framtak flokksforystunnar og þingflokksins og vilja í sjálfu sér ekki sjá þennan pakka.

Ég hygg, af því að hv. þingmaður talaði um þingmenn sem væru pirraðir og stuttir í spuna, að mönnum líði ekki eins vel núna þegar fræðimenn eru búnir að segja, hver af öðrum, að fyrirvararnir, beltin og axlaböndin, séu ekki túkalls virði. Síðast núna í morgun fá þessir fyrirvarar algjöra falleinkunn hjá virtum lögmanni hér í bænum.

Það stoðar lítið, eins og hv. þingmaður veit, að vera með belti og axlabönd ef maður er buxnalaus. Í þessu máli eru ríkisstjórnarflokkarnir og meiri hlutinn á Alþingi algerlega buxnalausir. Því skipti engu máli þó að þeir væru með snæri til að hífa upp um sig buxurnar, það þýðir ekkert þegar buxurnar eru engar.