149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn leita ég ásjár hjá forseta sem virts lögmanns vegna hugtaksins „einbeittur brotavilji“ sem ég hygg að hann hafi útskýrt fyrir mörgum ungum manninum og þyrfti örugglega að útskýra fyrir mér. Ég get ekki betur séð en að ríkisstjórn Íslands hafi mjög einbeittan brotavilja í þessu máli. Hún hefur mjög einbeittan vilja til að ganga gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar. Hún hefur mjög einbeittan vilja til þess að líta fram hjá öllum varúðarskiltum, heyra ekki varúðarorð sem mælt eru í góðum hug af færustu mönnum.

Þetta er alvarlegt, herra forseti. Það er alvarlegt að menn skuli ekki taka mark á þeim. Ég hef sagt það áður í umræðunni: Látum vera þótt hún hlusti ekki á okkur, látum það vera. En þetta snýst ekkert um það. Við erum ekki að biðja þessa ríkisstjórn að hlusta á okkur. Við erum að biðja þessa ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta að hlusta á ráðgefandi aðila sem eru færustu menn í sinni grein á Íslandi. En menn skella skollaeyrum við.

Og hvað er þá hægt að gera annað en að halda áfram andófi til að reyna að koma í veg fyrir að einbeittur brotavilji ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga?

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann: Sér hann fyrir sér hvað myndi fylgja því ef (Forseti hringir.) það yrði dæmt okkur í óhag í samningsbrotamáli vegna innleiðingar þriðja orkupakkans?