149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:43]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi geta þess að í máli mínu áðan vitnaði ég eftir minni til ummæla sem ég tel mig hafa séð höfð eftir prófessor emeritus Stefáni Má Stefánssyni um að hann telji dóm EFTA-dómstólsins hafa verið rangan. Ég man það svona og ég verð þá leiðréttur ef ég hef ekki farið rétt með, en ég vildi taka þetta fram.

Kjötmálið, eins og hv. þingmaður dregur fram með sláandi hætti, er mjög eftirtektarvert vegna þess að sérstaða okkar er svo mikil í því máli og ljós. Reyndar er sérstaða okkar í orkumálum líka mikil og ljós.

Rifjum upp. Sérstaðan í kjötmálinu er sú að við erum með búfjárstofna sem eru tiltölulega heilbrigðir, a.m.k. í samanburði við búfjárstofna í Evrópu sem hafa þjáðst af hvers kyns fári og pestum öldum saman, en vegna einangrunar eru stofnar okkar ekki þannig. Sömuleiðis höfum við náð miklum og góðum tökum á kampýlóbakter í alifuglarækt og einnig er lyfjanotkun hér miklu minni. Þetta er sérstaða.

Þrátt fyrir þá sérstöðu er gengið fram í því máli af mikilli hörku, fyllstu hörku. Og rétt eins og hv. þingmaður segir er kjötmálið smámál fyrir Evrópusambandið, algjört smámál.

En gagnvart orkunni er um mjög þýðingarmikið mál að ræða, grundvallarmál fyrir Evrópusambandið. Getum við átt von á öðru, m.a. í ljósi þeirrar sögu, en að gengið verði fram af fyllstu hörku gagnvart okkur, í samræmi við þá hörku sem var sýnd og kannski enn þá frekar?

Ég held að við getum ekki átt von á neinu öðru, herra forseti.