149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það er sífellt að koma betur og betur í ljós hversu vanbúið þetta mál er sem við erum að ræða og í raun og veru er ekki nema ein leið fyrir ríkisstjórnarmeirihlutann í því máli; að fresta því, leggja það til hliðar, fara betur yfir það. Eftir allt það sem komið hefur fram í þeim umræðum sem hafa átt sér stað undanfarna daga og nætur væri það algjört ábyrgðarleysi að setja málið fram eins og það er búið núna.

Ég er fegin að sjá að hv. formaður utanríkismálanefndar er hér í hliðarsal. Hún hefur sagt að öllum spurningum hafi verið svarað um þetta mál. Það væri fróðlegt að fá hana til að svara spurningu varðandi álit Arnars Þórs Jónssonar, lögmanns og héraðsdómara, sem birtist í morgun. Sá ágæti hv. þingmaður hefur sagt að öllum steinum hafi verið velt við. Það væri fróðlegt að heyra hana svara því sem fram kemur í áliti Eyjólfs Ármannssonar, lögmanns í Noregi, sem birt hefur mjög ákveðin varnaðarorð varðandi innleiðingu þriðja orkupakkans.

Það væri líka mjög fróðlegt að heyra hana svara spurningum sem varða áréttingarbréfið fræga og viðtal sem var haft við Friðrik Árna Friðriksson Hirst í Morgunblaðinu 10. apríl sl. Allt þetta væri mjög fróðlegt að heyra, ef hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar sæi sér fært að vera hér með okkur. Líkt og ég sagði rétt áðan sá ég henni bregða fyrir í hliðarsal og hélt í einfeldni minni og bjartsýni að hún væri komin til að leggja lóð sitt á vogarskálarnar til að gera umræðuna enn betri. Það lítur ekki út fyrir að svo verði að þessu sinni. En ég mun grípa tækifærið næst þegar ég sé hv. þingmanni bregða fyrir og kalla á hana til að koma til umræðu og svara spurningum á við þær sem ég lagði fram áðan.

Það vill svo til, herra forseti, að nú er í gangi söfnun undirskrifta — eða má ég segja „líka“ á fésbók, af því að þingmálið er íslenska? — þ.e. bænaskrá til forseta Alþingis um að hann fresti þessu þingmáli og taki það af dagskrá fram á haust. Nú þegar eru nokkur þúsund manns búin að „líka“ við þá beiðni.

Við finnum að það er aukinn þungi hjá almenningi, réttara sagt hjá fólkinu á götunni, sem kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld. Það er aukinn þungi sem birtist í því að fólk vill að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hlusti á það.

Nú er ferill minn í stjórnmálum ekki langur en ég þori samt að fullyrða að sá stjórnmálamaður sem hlustar ekki á fólkið í landinu verður annaðhvort eða hvort tveggja skammær í starfi eða nær ekki þeim tilgangi sem hugur hans stóð til. Hann mun ekki njóta trausts ef hann ekki hlustar á fólkið í landinu.

Við munum alveg örugglega sjá ef þetta mál verður keyrt í gegn, sem ég vona sannarlega að verði ekki, að þá mun traust fólks til ríkisstjórnarinnar hrynja og traust fólks á EES-samningnum mun bila, því miður. Það kærum við okkur ekki um. Þess vegna biðla ég enn til ríkisstjórnarinnar að draga þetta mál til baka, taka það af dagskrá, geyma það til hausts, fara betur yfir það, gaumgæfa það betur, fara yfir nýjustu álit lögmanna, kanna hvort ekki sé ráð að (Forseti hringir.) hlusta á þau góðu ráð að senda þetta mál til sameiginlegu EES-nefndarinnar.