149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nokkuð sammála hv. þingmanni og ég held einmitt að við sjáum þessa breiðu skírskotun fyrir aftan okkur. Hún er svona breið, ég held að hún sé bara þar.

Í framhaldi af þessu, af því að við erum að tala um stórfellda fyrirhugaða uppbyggingu, bæði vindmyllugarða og smávirkjana sem ekki þurfa að fara í umhverfismat, nota bene, tel ég liggja nokkuð ljóst fyrir að kostnaðarverðið á þeirri orku sem er framleidd með vindi og í smávirkjunum er allmiklu hærra en það verð sem við höfum verið að framleiða orku á hér undanfarna áratugi. Það leiðir hugann að því hvort það sé líklegra að þeir sem standa fyrir þeirri stórkostlegu uppbyggingu ætli sér að selja orkuna á innanlandsmarkaði á hærra verði en hefur þekkst undanfarið eða hvort þeir aðilar séu það langt komnir í áætlunum sínum að þeir sjái fram á að það sé alveg klárt að hingað verði lagður sæstrengur.

Mig langar að biðja hv. þingmann að fara yfir það með okkur hvort hann telji líklegra af því tvennu, annars vegar að menn muni selja þessa dýrari orku inn á innanlandsmarkaðinn, sem þýðir hærra verð til þeirra sem nota, eða hvort hann telji líklegt að menn séu með það alveg á hreinu að hingað verði lagður sæstrengur og að þeir geti selt orkuna fullu verði um sæstreng til útlanda í stað þess að hún sé nýtt hér til atvinnuuppbyggingar.