149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:32]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er góð spurning. Það er einmitt mjög upplýsandi að skoða þróunina fram að þessu því að það gefur okkur vísbendingar um hvers sé að vænta. Að vísu voru fyrsti og annar orkupakkinn ekki nærri því eins íþyngjandi og sá sem nú er til umræðu og þeir voru raunar líka eðlisólíkir. Þeir samanstóðu af tilskipunum, svokölluðum raforkutilskipunum, hétu ekki einu sinni orkupakkar fyrr en þeir voru endurskírðir það með tilkomu þriðja pakkans. Þeir hétu orkutilskipanir Evrópusambandsins. Munurinn á tilskipunum Evrópusambandsins og reglugerðum er sá að tilskipanir veita þjóðríkjunum miklu meira frelsi til að aðlaga tilskipanirnar að aðstæðum á hverjum stað. Engu að síður höfðu menn miklar áhyggjur, sumir hverjir, margir held ég að mér sé óhætt að segja, af þeim tilskipunum þegar þær bárust seint á síðustu öld og svo í byrjun þessarar.

Það er sérstaklega áhugavert að skoða umræðuna um annan orkupakkann, eins og hann er kallaður núna. Sá fyrsti hafði það fyrst og fremst í för með sér að skilgreina raforku sem vöru og þar með fella hana undir ýmis ákvæði EES-samningsins sem lýtur einmitt að umræðuefni mínu áðan, að með því að skilgreina raforkuna sem vöru fóru alls konar önnur ákvæði samningsins sem varða viðskipti með vörur að segja til sín. Svo var það önnur raforkutilskipunin og þar voru uppi miklar efasemdir af hálfu þingmanna úr ólíkum flokkum og t.d. mjög upplýsandi að lesa viðtal í Morgunblaðinu frá 2002 við Björn Bjarnason, þáverandi þingmann, sem varar við fjölmörgum þáttum, hækkandi orkuverði o.s.frv. (Forseti hringir.) sem svo allt kom á daginn.