149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:39]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla í þessari ræðu minni að ljúka yfirferð minni yfir upprunaábyrgðir raforku. Ég vona að mér takist að ljúka þeirri yfirferð minni vegna þess að ég hef verið mikið spurður um það efni að undanförnu. Eftir að ég fór yfir sögu virkjana á Íslandi hafa komið upp spurningar um tengsl og hversu mikið sé af jarðvarmavirkjunum og hversu stórt hlutfall þeirra virkjana sé í uppsettu afli innan lands. Ég mun í næstu ræðu, ef ég klára umfjöllun mína um upprunaábyrgðirnar, fjalla um sögu jarðvarmavirkjana. Ég hugsa að það verði ekki nema ein eða tvær ræður um það. Ég mun leitast við að verða við óskum um það efni.

Ég hef fjallað um lagalegan fyrirvara, þar sem ég virðist vera í sjálfskipuðum erindisrekstri að leita að þeim lagalega fyrirvara sem stjórnarliðar kynntu fyrir alþjóð, og sérstaklega þá stjórnarliðinu sjálfu, og sögðu að væri grunnforsenda fyrir því að þessi innleiðing á orkutilskipunum Evrópusambandsins myndi takast svo vel. Sú leit stendur yfir. Ég hef verið önnum kafinn í öðrum verkefnum í dag en ég hef heyrt utan að mér að ýmsar ábendingar hefðu komið. Síðasta ábendingin sem ég heyrði af var frá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni. Það var svolítið athyglisvert sem hann benti á því að hann var ekki sammála mörgum öðrum sem bent hafa í aðrar áttir. En það er til skoðunar og ég mun flytja fréttir af því um leið og það hefur verið rannsakað.

Varðandi upprunaábyrgð á raforku, sem er vottorð, ekkert nema bréf eða rafrænt skjal um að menn geti sannað að raforka á pappírsformi sé upprunnin til endurnýjanlega orkugjafa, átti ég eftir að segja frá því að varðandi sölu á þessum vottorðum eru fjögur fyrirtæki sem hafa verið að selja þessi vottorð hér innan lands. Ég átti eftir að fjalla um hluta af því, t.d. að fjalla um hlut Landsvirkjunar, sem er langstærsta orkufyrirtækið. Ég var búinn að segja ykkur frá því að á síðasta ári, 2018, var áætlað að íslensk fyrirtæki myndu selja upprunaábyrgðir fyrir 800–850 millj. kr. Þá kemur að hlut Landsvirkjunar og kemur fram í svari við fyrirspurn minni til hæstv. ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra fyrir nokkrum vikum, að af þessari sölu er hlutur Landsvirkjunar langstærstur. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun er áætlað að tekjur Landsvirkjunar vegna sölu upprunaábyrgða raforku verði um 600 millj. kr. árið 2018.“ — 600 milljónir af heildarsölu 800–850 þannig að þetta er um þrír fjórðu af heildarsölunni frá innlendum orkufyrirtækjum. — „Landsvirkjun hefur látið upprunaábyrgðir fylgja með í heildsölu undanfarin ár, án gjalds, þannig að heimili og fyrirtæki á Íslandi geti staðfest að þau noti orku úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum.“

Svo segir í svari hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Fyrirtæki þurfa hins vegar að kalla eftir upprunavottorði frá smásöluaðila.“

Það er ekki gefið að viðskiptavinir Landsvirkjunar geti gengið að því sem vísu að geta framvísað þessu upprunaábyrgðarvottorði, heldur þurfa þeir að kalla eftir því. Það kemur til af því að að það er hugsanlega uppselt. Það kemur að því einn góðan veðurdag, að mínu mati, að innlend fyrirtæki þurfa að borga fyrir þessi vottorð vegna þess að ef þau eru uppseld og allt selt erlendis verða íslensk fyrirtæki náttúrlega fyrr eða síðar að keppa á þessum markaði og kaupa sín vottorð ef þau vilja sanna uppruna orkunnar fyrir viðskiptavinum sínum, sem gætu verið erlendir aðilar sem gera kröfu til þess að þær vörur sem þeir kaupa séu framleiddar með orkugjöfum sem koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Ég held að ég hafi verið búinn að klára þessa yfirferð en ég vil segja, með leyfi forseta, ef ég hef tíma til — (Forseti hringir.) að litið er á orkugjafana sem auðlind en það er líka litið á hreinleika orkugjafanna sem sjálfstæða auðlind.