149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:48]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það veldur mér vissum vonbrigðum að ekki skuli vera meira gagn í vitnisburði hv. þm. Þorsteins Víglundssonar en raun ber vitni, en maður lifir í voninni um að nýjar upplýsingar berist sem geti varpað einhverju ljósi á þetta.

Það sem ég hjó þó sérstaklega eftir hjá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni í vitnisburði hans var að hann nefndi að fyrirvarinn væri ekki tilbúinn. Hann taldi að hann væri í vinnslu í nefndinni og þá auðvitað kemur upp spurningin: Ef sú er raunin, ef svarið er þarna að finna og nánari eftirgrennslan leiðir það í ljós, hvers vegna í ósköpunum ætlast ríkisstjórnin til þess af okkur þingmönnum að við samþykkjum þriðja orkupakkann með vísan í fyrirvara án þess að búið sé að kynna fyrirvarann? Er það röð sem gengur upp? Getur á nokkurn hátt talist eðlileg röð hlutanna að segja þingmönnum að þeim sé óhætt að samþykkja stórt og umdeilt mál, þriðja orkupakkann, vegna þess að það sé kominn fyrirvari en ætla ekki að kynna hann fyrr en eftir að málið hefur verið afgreitt? Ef sú er raunin, ef fyrirvarinn er í vinnslu í atvinnuveganefnd af öllum stöðum og birtist einhvern tímann, hefur hv. þingmaður þá einhverja kenningu um það hvers vegna hlutunum er raðað upp með þessum hætti, að ætlast til þess að þingið samþykki málið fyrst og fái svo að sjá fyrirvarann?