149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:51]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir þessar hugleiðingar og spurningu. Það er alþekkt viðbára varðandi rannsóknir mála að þeir sem hafa einhverju að leyna bendi í allar áttir og verði tvísaga. Það er alþekkt í rannsóknum mála og ekkert nýtt að menn bendi í allar áttir þegar leitað er eftir einhverju sem þeir vita kannski ekki um eða eru að reyna að fela.

Í þessu máli á það auðvitað ekkert við vegna þess að málið er kynnt fyrir þjóðinni og sérstaklega þó fyrir stjórnarliðinu sem felldi niður allar varnir um leið og það var orðað þannig að þeir myndu gera þetta en með lagalegum fyrirvara, sem var grundvallarforsenda. Stjórnarliðið hefur enga burði haft eða sýnt til að útskýra þetta fyrir okkur í stjórnarandstöðunni, eða þeirri stjórnarandstöðu sem starfar á þinginu sem er bara fólgin í einum flokki um þessar mundir, en fyrst og fremst hafa þeir ekki haft burði til að útskýra þetta fyrir þjóðinni svo að hún skilji.

Hvað þýðir það? Þýðir það að ekkert sé þarna á bak við, ekkert að finna, gagni ekki að gera húsleit hjá atvinnuveganefnd vegna þess að það sé ekkert þar? Á maður að trúa því? Menn benda á að þetta sé í vinnslu í atvinnuveganefnd en framburður fulltrúa okkar þar hefur verið á þann hátt að þeir hafi ekki orðið varir við hann. Þetta er alvarlegt. Stjórnin verður að geta útskýrt fyrir þjóðinni hvað felst (Forseti hringir.) í hinum lagalega fyrirvara, hvar hann er, hvers efnis hann er og í hverju hann er fólginn og einnig, að síðustu, hvert gildi hans er.