149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hnaut einmitt um síðustu orð hv. þingmanns um að ríkisstjórnin sé ófær um að kynna þetta mál fyrir þjóðinni. Það er punktur sem ég er búinn að taka upp í umræðunni núna í kvöld. Ég er búinn að segja að það sé í sjálfu sér skylda ríkisstjórnarinnar að kynna orkupakkann þannig að almenningur skilji. Þetta er flókið mál. Það þarf að eyða dálitlum tíma og fyrirhöfn í það.

Það kom einmitt fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins þegar talað var við fólkið á götunni að kallað var eftir frekari kynningu á þessu máli áður en það yrði keyrt í gegn, eins og lítur út fyrir að menn ætli að gera nú. Mig langaði aðeins til að fara ofan í það með hv. þingmanni og biðja hann um að gefa okkur sína sýn á það, vegna þess að hann er búinn að taka það fram að menn geti ekki útskýrt fyrirvarana, sem eru stundum til og stundum ekki og finnast ekki o.s.frv., og eru náttúrlega vonlausir og máttlausir, eins og fram hefur komið.

En mig langaði fyrst að spyrja hv. þingmann hvað hann telji að ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi ásamt fylgihnöttum geti gert til að skýra þetta mál með gaumgæfilegum hætti fyrir þjóðinni þannig að almenningur geti gert sér ljóst áður en þetta mál verður keyrt hér í gegn og samþykkt að lokum, ef svo fer, hvaða afleiðingar það mun hafa á líf hans og afkomendur. Mig langar að biðja hv. þingmann (Forseti hringir.) um að fara aðeins yfir það fyrir okkur.