149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:00]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég verð að upplýsa hv. þingmann fyrir hönd þeirra sem tekið hafa að sér að rannsaka þetta mál og reynt að leita að þessum fyrirvörum, og kannski verður hann fyrir vonbrigðum, að það er alls ekki búið að staðfesta að hér sé um marga fyrirvara að ræða. Í fyrsta lagi hefur rannsóknin alls ekki leitt það í ljós hvort það sé einn eða fleiri. Það er óljóst eða óupplýst. Við héldum, hvort það var í gær, að við að við værum búin að staðsetja nokkuð örugglega að í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti væri hann í formi draga að reglugerð sem ráðherra var að undirbúa sig fyrir að skrifa undir. Við vorum orðin nokkuð viss í okkar sök. En svo koma nýjar upplýsingar, eins og í dag, nýjar upplýsingar, t.d. frá hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, um að þetta mál sé inni í atvinnuveganefnd. Þannig að rannsóknin sveiflast dag frá degi og þetta fer að verða spennandi.

Ég fagna öllum þeim sem geta lagt okkur lið í þessu efni.

En varðandi stjórnarandstöðuna sem áður var og er núna komin í lið með stjórninni í þessu máli: Þegar þetta var kynnt, eins og við erum margbúin að tala um, varðandi lagalega fyrirvarann, sem komið hefur í ljós að enginn veit í raun og veru hvað felst í, hvar hann er og hvers efnis hann er og hver áhrif hans verða, hvort eitthvert hald er í honum ef eitthvað kemur upp á, þá stökk stjórnarandstaðan, sem áður var, inn í skrúðgönguna strax á fyrsta degi. Hún stökk inn í skrúðgönguna þar sem trommað var að þetta væri svo gott mál og fyrirvararnir myndu halda, væru svo frábærir. Þeir stukku þar inn gagnrýnislaust, herra forseti.