149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það er tvennt sem mig langar að leiða fram í þessari ræðu. Í fyrsta lagi langar mig að fara lítillega yfir umsögn Alþýðusambands Íslands sem var send til utanríkismálanefndar í tengslum við framlagningu þessa máls um þriðja orkupakkann. Í þeirri umsögn segir, með leyfi forseta:

„Raforka er grunnþjónusta og á ekki að mati Alþýðusambands Íslands að vera háð markaðsforsendum hverju sinni. Raforka á að vera á forræði almennings og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði. Það er því mat ASÍ að of langt hafi verið gengið nú þegar í markaðsvæðingu grunnstoða og feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna og ganga lengra í þá átt. Rafmagn er undirstaða tilveru okkar í dag og það er samfélagsleg ábyrgð að tryggja framleiðslu og flutning til allra, sú ábyrgð er of mikil til að markaðurinn fái að véla með hana enda hefur markaðsvæðing grunnstoða yfirleitt ekki bætt þjónustu, lækkað verð né bætt stöðu starfsfólks.

Það er forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu lífsgæða að eignarhald á auðlindum sé í samfélagslegri eigu og að við njótum öll arðs af nýtingu auðlindanna og getum ráðstafað okkar orku sjálf til uppbyggingar atvinnu hér á landi.“

Það hefur komið fram áður í þessari umræðu að Landvernd skilaði ekki umsögn um þetta mál en það hefur jafnframt komið fram opinberlega að fyrrverandi formaður Landverndar, Guðmundur Hörður Guðmundsson, er á móti upptöku þriðja orkupakkans. Hann hefur lýst því mjög gaumgæfilega á opinberum vettvangi.

Til að öllu sé til skila haldið, herra forseti, til að koma í veg fyrir að Guðmundur Hörður Guðmundsson, sem er gagngóður drengur og málafylgjumaður, verði fyrir áreiti að óþarfa vil ég taka fram að hann er ekki tengdur Miðflokknum á nokkurn hátt. Hann er er jafn langt frá skoðunum Miðflokksins í mörgu og hann framast getur orðið þannig að ég vona að hann verði ekki fyrir kárínum af því að hafa stigið fram og sagst vera á móti þessum orkupakka.

Hann hefur í gegnum tíðina sett fram bloggpunkta sem eru mjög gaumgæfilegir og fara vel yfir. Hann talar t.d. í innfærslu frá því í júní 2017, með leyfi forseta, um offjárfestingu atvinnuveganna og að sú offjárfesting hafi líklega átt stærstan þátt í að skapa óstöðugleika í íslenska hagkerfinu. Hann segir að verðbólga, gengisfellingar, okurvextir og atvinnuleysi hafi yfirleitt fylgt í kjölfar mikilla offjárfestinga, til að mynda í síldveiðum á sjöunda áratugnum og þorskveiðum áratuginn þar á eftir, offjárfestinga í bankakerfinu o.s.frv.

Hann segir að sú offjárfesting sé til marks um óheilbrigt og spillt samband viðskipta og stjórnmála á Íslandi. Hann dregur fram dæmi af Orkuveitu Reykjavíkur. Þar fóru menn offari í einkavæðingardraumum sem endaði með því að það varð um 48% hækkun á raforkuverði 2011 og 68% hækkun flutningsgjalds, vegna þess að menn fóru þar offari og ætluðu sér að markaðsvæða eins mikið eins og hægt var.

Hann bendir einnig á að eins og nú er sé mikil offjárfesting fyrirhuguð í línulögn. Til dæmis hefur komið fram hjá Norðuráli að íslenska raforkukerfið, raforkuflutningskerfið, sé of dýrt í samanburði við til að mynda Noreg. Hann vill halda því fram að Landsnet starfi enn í anda úreltrar stóriðjustefnu og varar einmitt við því að nú sé farið af stað með offjárfestingu í flutningslínum og væntir þess að það sé gert að hluta vegna þess að menn sjái, innan skamms eða innan seilingar, sæstreng verða að veruleika.