149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:13]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Já, ég tel að það séu miklar líkur á að beint samhengi sé milli aðskilnaðar Farice og Landsvirkjunar og innleiðingar þriðja orkupakkans. En þetta er eitthvað sem við þurfum að kryfja nánar og helst að vísa beint í þær reglugerðir sem varða þetta mál. Það er einmitt hluti af markmiðum þriðja orkupakkans að brjóta upp slíka starfsemi þannig að hún sé ekki á hendi sama fyrirtækis. Svoleiðis að mér finnst liggja beint við að þetta sé nátengt.

Þetta er líka áminning um að í þessum orkupakka er falið mikið óhagræði fyrir Ísland vegna íslenskra aðstæðna. Þetta er fámenn þjóð í stóru landi og manni virðist einhvern veginn augljóst að eina vitið fyrir okkur sé að reyna að ráðast í framkvæmdir, sem eru nú eiginlega dýrar, á þann hátt að mannvirkin og flutningsgetan nýtist heildinni, nýtist öllum. Það getum við gert með því fyrirkomulagi sem við höfum haft hér á landi. En ef þetta á að verða samkeppni ólíkra fyrirtækja, ég tala nú ekki um erlendra fyrirtækja í bland, og svo bætist það við að sum selja jafnvel til útlanda, þá er viðbúið að mikið óhagræði verði í kerfinu. Menn ráðist í fjárfestingar umfram það sem hefði þurft og þar af leiðandi fjárfesti umfram nauðsyn og innheimti að sjálfsögðu gjald í samræmi við það.