149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er svolítið sérstakt að hv. þingmenn sem eru fylgjandi málinu skuli ekki koma hingað og mæla því bót eða tala fyrir því. Það hafa fjölmargar spurningar komið fram og þó þykist ég sjá það að einhverjir þeirra telji ekkert nýtt hafi komið fram í málinu. Þá erum við bara ósammála því. Til dæmis þarf að fá svör við því hvernig menn telji þróunina varðandi orkupakka fjögur verða. Líka varðandi það sem ég nefndi áðan, að Evrópusambandið líti svo á að reglurnar gildi um efnahagslögsöguna og landgrunnið, sem ég hefði haldið að undirstrikaði enn þá meira hættuna á því að einkaaðilar fari í málsókn gegn ríkinu og að það muni styrkja stöðu þeirra ef ríkið reyni með einhverjum hætti komið í veg fyrir að hér verði lagður rafstrengur.

Auðvitað má hugsa sér að ríkið og sveitarfélög geti þvælst fyrir í skipulagsferli og slíku. En það er alveg ljóst að miðað við þá hagsmuni sem eru mögulega í húfi verður það sótt af mikilli hörku af þeim sem telja hagkvæmt að fara í svo gríðarlega stórt og viðamikið verkefni sem sæstrengur er.

Það er því mikið áhyggjuefni og ég spyr hv. þingmann hvort það geti verið að hv. þingmenn séu ekki upplýstir um allt og jafnvel hæstv. forsætisráðherra, miðað við hvernig hún talaði í dag eða í morgun. Ég trúi því ekki að jafn varkár og góður stjórnmálamaður og forsætisráðherra hefði talað þannig ef hún vissi hvernig lægi í málinu öllu saman.