149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni. Ég ber fyllsta traust til og mikla virðingu fyrir hæstv. forsætisráðherra. Hún er einn af stærstu stjórnmálamönnum sem við eigum og ég er alveg sannfærður um að hún hefði ekki svarað svona í gær eða dag, eða hvenær sem það var, ef henni hefði verið fullkunnugt um málavöxtu. Ég held að það sé eins gagnvart henni og þeim þingmönnum sem ég held fram að hafi verið blekktir til að taka þátt í að styðja þetta mál. Ég held að fólk hafi ekki verið upplýst að fullu um alla enda og kanta málsins.

Þá kem ég enn að því að þetta mál er gríðarflókið í eðli sínu. Það er það. Allar tilraunir til að ýta því frá og segja að það sé einfalt og skipti ekki neinu máli stangast á við þá áfergju sem menn hafa til að þrýsta málinu í gegn. Má ég þá vitna aftur í, með leyfi forseta, fyrrverandi hv. þingmann, Sighvat Björgvinsson, sem er ekki Miðflokksmaður og ekki stuðningsmaður Miðflokksins á neinn hátt. Hann sagði: Ef þriðji orkupakkinn skiptir Ísland engu máli, hvers vegna er þá Alþingi eyða tíma í að innleiða hann? Hvers vegna láta menn það þá ekki vera? Hvað eru menn að eyða tíma í það — eins og hann sagði — þegar nóg er af stórum málum til þess að fjalla um? Hvað eru menn að eyða tíma í þetta fánýti ef það skiptir Íslendinga engu máli?

En þetta stangast á við þann mikla áhuga og þann mikla einbeitta vilja sem menn hafa til að þrýsta þessu máli í gegnum þingið á engum tíma, órannsökuðu, illa búnu og í andstöðu við þjóðina.