149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar Norðmenn óskuðu eftir því að fá undanþágu frá gerð 72/2009, geri ég ráð fyrir því að á þeim tíma hafi þeir ekki getað séð hvað fælist í þeirri uppfærslu á þeirri grein sem nú er boðuð í fjórða orkupakkanum. Svörin sem þeir fengu þá var að þessi gerð, 72/2009, gilti og myndi gilda í efnahagslögsögu Noregs og landgrunni Noregs. Þar af leiðandi mun hið sama líka gilda um Ísland. Og ef einhvers konar uppfærsla á þessari gerð um þessar sameiginlegu reglur og hvernig skuli starfa eftir þeim, hefur kannski enn þá dýpri og meiri áhrif á þessa túlkun eða framkvæmd gerðarinnar, þegar kemur að þessum þáttum sem ég nefndi, er full ástæða til að staldra við.

Mig langar að spyrja, og ég veit að einhverjir þingmenn eru hér enn í húsi þó að það sé reyndar ekki frá öllum flokkum, hvort menn hafi gert sér grein fyrir því í fyrsta lagi að þessi fyrirvari er eins og hann er, hann tekur ekkert á þeim einstaklingum eða lögaðilum sem myndu vilja fara þessa leið upp á sitt einsdæmi, og líka það að menn hafa gert sér grein fyrir því að landgrunnið og efnahagslögsagan eru undir verði þetta innleitt. Gerðu menn sér grein fyrir því að þetta gildir ekki bara um einhverjar litlar og sætar reglur í kringum Orkustofnun, eitthvað slíkt, heldur allt sem er undir reglunum og þar sem þær eiga að gilda, hæstv. forseti? Það er ekki bara túnjaðarinn hérna í kringum Alþingi, það landgrunnið og efnahagslögsagan. Því verða menn að vera alveg klárir á.