149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé hægt, hv. þingmaður, að segja að það hafi verið fyrir fram vitað að þetta færi svona. Menn töldu að þeir hefðu ákveðna fyrirvara, undanþágur varðandi kjötinnflutning til landsins, m.a. út af legu, sjúkdómavörnum og slíku. Það reyndist því miður ekki þannig, í það minnsta túlkaði EFTA-dómstóllinn málið ekki eins og stjórnvöld á Íslandi. Það kom einmitt í hlut þess sem hér stendur að taka ákvörðun á sínum tíma um að reka þetta mál alla leið, að láta reyna á það. Það hafðist því miður ekki og nú sitjum við uppi með viðbrögð við því öllu saman.

Líkindin milli kjöts og orku eru kannski fyrst og fremst þau að hvort tveggja er vörur og í augum margra, Evrópusambandsins og einhverra heildsala á Íslandi, gildir sama um þær, þarna eigi að vera frjálst flæði yfir landamæri, þetta sé hluti af fjórfrelsinu og því eigi að vera hægt að versla með vörurnar og ekki megi hindra að viðskipti geti fari fram. Það er nákvæmlega það sem við erum að láta okkur dreyma um, eða ekki við, þeir sem standa að hinum meinta fyrirvara eða fyrirvörum, að hægt sé að koma í veg fyrir að sæstrengur verði lagður og að allar þessar gerðir verða að fullu innleiddar. Þær verða að vísu að fullu innleiddar en menn halda hins vegar að sæstrengskaflinn sé undanskilinn, sem hann er ekki ef einstaklingur eða lögaðili lætur á það reyna. Hann gildir í rauninni aðeins fyrir stjórnvöld, þessi blessaði fyrirvari eða fyrirvarar.