149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að Orkustofnun og sambærilegir aðilar verða að fara eftir þeim reglum sem umboðsaðilum eða hvað við köllum þetta, nú er nafnið dottið úr hausnum á mér, þeim aðilum sem munu vinna að því að fylgja eftir þeim reglum sem Evrópusambandið, ACER-stofnunin setur og okkar tvíhliða stofnun, ESA, mun hafa haft tækifæri til að fjalla um líka — það er ljóst að eftir þeim verður Orkustofnun að starfa. Orkustofnun mun að einhverju leyti öðlast sjálfstæði eða meira svigrúm frá íslenska ríkisvaldinu en á móti kemur að aðrir hlutir koma í staðinn. Það er skrifað inn í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar ákveðið ferli til að leysa úr slíkum ágreiningi. Það verður að segjast eins og er að orðið skal, eða „shall“ á enskri tungu, er svolítið mikið notað, þ.e. hvernig eftirlitsstofnun ESA eigi að bregðast við. Það hefur reyndar enginn mótmælt því að ACER mun geta og mun hafa frumkvæði að því að setja reglur og koma með tillögur að lausnum komi upp ágreiningur sem ESA þarf að taka til umfjöllunar.

Það sem væri hins vegar áhugavert að fara yfir er hvaða þróun er á regluverki ACER í fjórða orkupakkanum sem er búið að kynna og liggur fyrir hvaða breytingar verða þar t.d. á verksviði Orkustofnunar, verði það allt að veruleika.