149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég vil byrja á að segja að þótt ég hafi verið sammála líkingu hv. þingmanns um þá aðferðafræði sem Evrópusambandið notar við innleiðingar til að ná markmiðum sínum, þá finnst mér nú svo sem illa gert gagnvart hafragrautnum að líkja honum við þetta samband, af því að hann er hollur og góður og fer ágætlega í maga meðan hitt er ekki jafn gott í það minnsta, ég ætla ekki að segja meira.

Við erum að fjalla um orkupakka þrjú. Á miðvikudaginn í síðustu viku tók ég eftir og sá að Evrópusambandið birti á vefsíðu sinni að orkupakki fjögur væri tilbúinn. Þá liggur fyrir hvað í honum felst. Meðal annars hefur komið í ljós að þar er uppfærsla á þeim gerðum sem við eigum að fara að samþykkja núna. Það er sem sagt búið að segja að breytingar verði, og þær liggja fyrir, á því sem við eigum að fara að samþykkja núna. Væri ekki svolítið snjallt og er það ekki í rauninni rétt að staldra aðeins við og reyna að skoða hvað er í vændum, sjá aðeins inn í framtíðina, vegna þess að sú bók er opin? Mér þætti fróðlegt að vita hvort hv. þingmaður geti verið sammála mér um það.

Þetta er svolítið eins og — hv. þingmaður var nú útgerðarmaður á trillu áður en hann fór inn á þing, ef hann gæti vitað hvernig ástand sjávarins yrði eða hvar besta veiðin yrði 2021, hvort það væri ekki svolítið gott að geta gert áætlanir og sniðið sinn stakk eftir vexti í samræmi við það.