149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:01]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurninguna. Þetta er mjög góð spurning. Eins og þingmaðurinn kom inn á er þetta engin kristalskúla þannig lagað séð og maður hefur heyrt það. Í umsögn frá Samtökum iðnaðarins kemur fram að fjórði orkupakkinn sé á borðinu í vinnslu og einhver beinagrind komin um hvernig um hnútana þar er búið. Þá er mjög rökrétt að hinkra við og skoða það miklu betur áður en við samþykkjum orkupakka þrjú, því að þetta er ekkert smámál. Þetta er stórmál. Öll skref í málinu þarf að taka mjög varlega með skynsemina að leiðarljósi.

Mér finnst þessi punktur að hinkra við, lesa sig til um og fræðast um hvað fjórði orkupakkinn snýst um sé mjög góð rök ofan á öll önnur rök sem við höfum talað um hér á undan. Það er ekki spurning, og fresta málinu alla vega til haustsins og eins að hafa það í handraðanum að nýta sér þann möguleika að koma þessu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og taka síðan málið upp aftur.