149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og þetta mjög svo áhugaverða sögulega yfirlit hans um jarðvarmavirkjanir landsmanna og mikilvægi þeirra í okkar orkuöflun og hversu mikið þær hafa vaxið á undanförnum árum. Kom mér sérstaklega á óvart hvað þær hafa vaxið er lýtur að raforkuframleiðslu.

Það er nauðsynlegt einmitt að halda til haga upplýsingum því að margt bendir til þess að ákveðin fyrirtæki séu að undirbúa sig fyrir það að selja orkuna úr landi, þessa hreinu orku, og það getur haft afleiðingar fyrir fyrirtækin hér heima sem kaupa rafmagn af þeim fyrirtækjum, afleiðingar sem yrðu þá þær að rafmagnsverðið myndi hækka. Þessi hreina orka, sem er okkur svo mikilvæg, yrði flutt úr landi.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á djúpboranir sem mér þykir mjög áhugavert verkefni. Það má finna þó nokkuð um greinar á netinu á ensku um að hér sé verið að huga að djúpborunum sem eigi að gagnast eins og t.d. Bretlandi. Allt ber að sama brunni með það að stefnan sé að selja orkuna úr landi. En nú eru t.d. umhverfisáhrif þessara djúpborana þó nokkuð mikil. Mig langar að kanna það hjá hv. þingmanni hvort hann (Forseti hringir.) hafi kynnt sér það sérstaklega.