149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Nú erum við með þessa staðreynd fyrir framan okkur að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun hefur verið að hækka raforkuverð umtalsvert til stórnotenda í það minnsta, stóriðjunnar sérstaklega. Ósjálfrátt veltir maður því fyrir sér, eins og hv. þingmaður, að það sé einhvers konar stefna þar í gangi að reyna að draga úr sölu til slíkra fyrirtækja, hvort sem það er til útflutnings eða til að reyna að laða að einhver önnur fyrirtæki. En þá veltir maður fyrir sér hvort verðlagið sé það hátt að það borgi sig t.d. fyrir gagnaver sem er að leita sér að köldum stað og ódýrri orku, að fara t.d. til Kanada eða eitthvert annað, Ísland væri útundan.

En svo er annað sem skiptir máli í þessu öllu saman, þ.e. hver þróunin í þessum orkupökkum öllum verður þegar kemur að umsýslu með orkumál. Og hvort þær breytingar verði sem boðaðar eru á orkumarkaðnum í Evrópu og koma m.a. að einhverju leyti fram í þessum orkupökkum, þar á meðal varðandi eftirlitshlutverk, völd og inngrip sem stofnanir eins og ACER og umboðs- eða undirstofnanir hennar eiga að hafa. Þá veltir maður fyrir sér hvort líkur séu á því að orkuverð, hvort sem það er til einstaklinga, fyrirtækja eða jafnvel stórnotenda, komi til með að hækka í framtíðinni. Ef ég man rétt var Landsvirkjun líka að gera samninga til styttri tíma en gerðir hafa verið. Þá mun verð þurfa, þegar kemur að endurnýjun samninga, að hækka enn þá meira, m.a. vegna umsýslukostnaðar sem mun óhjákvæmilega aukast.