149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Við þessa umræðu hefur komið fram að ríkisstjórnarmeirihlutinn og þingmeirihlutinn ásamt fylgihnöttum hefur látið sér varnaðarorð reyndra manna sem vind um eyru þjóta. Ég ákvað í þetta sinn að bera niður í umsögn líklega þess manns sem mesta reynslu hefur og þekkingu á þeim samningi sem við erum að tala um og sem þetta er hluti af, þ.e. Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Í sjálfu sér leiðir hann þetta mál fram mjög ljóst. Hann takmarkar sig við fjórar spurningar sem eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

„(1) Ber brýna nauðsyn til að veita ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar lagagildi hér á landi, þrátt fyrir að öllum beri saman um að þau lagaákvæði „eiga ekki við og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu“? Svarið við því er nei.

(2) Þar sem öllum og þar með talið flutningsmönnum málsins ber saman um að tenging íslensks raforkumarkaðar við þann evrópska … myndi hafa „margvísleg áhrif hér á landi““ — sjá tilvitnun í greinargerðina — „ber löggjafanum, að mínu mati, skylda til að greina vandlega hver þessi áhrif verði nú þegar, en láti það ekki bíða seinni tíma, þrátt fyrir að áhrifavaldurinn — lögin — hafi þegar tekið gildi. Þetta er að mínu mati kjarni málsins.“ — Þá kemur næsta spurning, með leyfi forseta:

„(3) Var sameiginlegur orkumarkaður Evrópusambandsins hluti af EES-samningnum, þegar hann var undirritaður árið 1992? Svarið við því er nei. Fullyrðingar í greinargerð um annað (sjá bls. 4) eru einfaldlega rangar.“

Fjórða spurningin er þessi:

„(4) Mun höfnun á lögleiðingu orkupakka þrjú … setja EES-samninginn í uppnám? Stutta svarið við því er nei. Hins vegar verða að teljast verulegar líkur á því að ótímabær lögleiðing orkupakka þrjú og ófyrirséðar og óhagstæðar afleiðingar, öndverðar íslenskum þjóðarhagsmunum, muni grafa undan trausti á og efla andstöðu með þjóðinni við EES-samninginn, eins og reynslan sýnir frá Noregi. Þegar af þeirri ástæðu er óráðlegt að flana að fyrirhugaðri löggjöf nú.“

Jón Baldvin segir þegar hann fer að skýra út, með leyfi forseta:

„Löggjafanum ber skylda til að greina þessi „margvíslegu áhrif“ út frá íslenskum þjóðarhagsmunum og hagsmunum neytenda áður en lagt er upp í þessa óvissuferð. M.a. vegna þess að yfirgnæfandi líkur eru á því að meintir fyrirvarar reynist haldlitlir vegna þessara „margvíslegu áhrifa“. … Framsal valds til fjölþjóðlegra stofnana réttlætist jafnan af því að það þjóni þjóðarhagsmunum betur en óbreytt ástand. Þessa þjóðhagslegu greiningu skortir gersamlega. Hún þarf að liggja fyrir áður en lengra er haldið. Það er ekki nóg að vísa í fyrirvara, sem vafasamt er að haldi þegar á reynir.“

Síðan segir litlu síðar, með leyfi forseta:

„Meginreglur innri markaðar ESB snúa að grunnreglum fjórfrelsisins um jafnræði keppinauta á samkeppnismörkuðum. Ráðandi markaðshlutdeild ríkisfyrirtækja samrýmist ekki þeim reglum. … Reynsla Norðmanna staðfestir þetta.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Hætt er við að tilgreindir fyrirvarar ráðherra reynist haldlitlir þegar á reynir. Því má slá föstu að yfirlýsing núverandi framkvæmdastjóra orkumála ESB með ráðherra reynist samkvæmt fyrri reynslu marklaus. Hefðbundin norsk löggjöf um virkjunarréttindi hefur þegar verið dæmd ósamrýmanleg meginreglum varðandi samkeppni á innri markaðnum. Viljum við taka þessa áhættu?“

Jón Baldvin segir síðan skýrt og skorinort, með leyfi forseta:

„Þeir sem halda því fram, að fyrirhuguð löggjöf snúist aðallega um neytendavernd þurfa að lesa sér betur til.“

Að lokum segir hann:

„Niðurstaðan er því sú að það sé óráðlegt að flana að lögleiðingu um tengingu við sameiginlega markaðinn nú með haldlitlum eða haldlausum fyrirvörum og alls ónógri vitneskju um „hinar margvíslegu afleiðingar“.“

Af því að ég hef svo stuttan tíma ætla ég bara að fara hér með lokaorð Jóns Baldvins, með leyfi forseta:

„Ef hinn voldugi samningsaðili, Evrópusambandið, hættir að virða í reynd þetta grundvallaratriði EES-samningsins og krefst þess að EFTA-ríkin samþykki skilyrðislaust það sem að þeim er rétt, án tillits til eigin þjóðarhagsmuna, er hætt við að stuðningur við EES-samninginn fari þverrandi. Þar með getur EES-samningurinn, með öllum þeim ávinningi sem hann hefur tryggt Íslandi á undanförnum aldarfjórðungi, verið í uppnámi. Á því bera þá þeir einir ábyrgð sem vilja þröngva þriðja orkupakkanum upp á þjóðina — með ófyrirséðum afleiðingum og í trássi (Forseti hringir.) við þjóðarviljann.“

Ég gæti ekki verið meira sammála, herra forseti.