149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í mínum huga er það mjög sérstakt að stjórnarmeirihlutinn, fylgjendur málsins, skuli ekki leggja meiri áherslu á að tala fyrir því. Hv. þm. Birgir Þórarinsson benti á — ætli það séu ekki í kringum 20 þingmenn sem ekkert hafa tjáð sig um þetta mál í ræðustól? Maður veltir fyrir sér hvers vegna svo sé.

Frá því að orkupakki þrjú var afgreiddur inn í þingið hefur fjórði orkupakkinn líka komið í ljós og ljóst að þar er verið að breyta og uppfæra hluti sem við fjöllum um núna í þessum þriðja. Samt sem áður virðist enginn áhugi vera hjá þingmönnum stjórnarliðsins á að meta hvort það hafi áhrif á fullveldi landsins þegar báðir pakkarnir eru skoðaðar saman. Hvað býr að baki? Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að annaðhvort er ég búinn að gleyma því eða það hefur bara aldrei komið fram: Hvers vegna er svona mikilvægt að samþykkja þennan orkupakka þrjú? Hvers vegna vill stjórnarmeirihlutinn samþykkja hann? Það er búið að sýna fram á að ekki er það neytendaverndin, ekki er það til að lækka raforkuverð. Hvers vegna þá? Er það bara til að tékka í boxið að við uppfyllum skyldur okkar sem aðilar að EES-samstarfinu? Ef svo er þurfum við ekki stjórnskipulegan fyrirvara. Við þurfum ekki að halda fund í sameiginlegu EES-nefndinni ef við ætlum bara að samþykkja það sem þaðan kemur.

Ég hef áhyggjur af því, virðulegur forseti, að ef viðhorfið er þetta erum við ekki bara á beinu brautinni með að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins, við erum á hraðbrautinni. Við erum á hraðri leið með að innleiða stefnu sem er hönnuð og gerð fyrir allt aðrar aðstæður og hluti en gilda á Íslandi. Það á að gerast núna í hraði og flýti í boði þessa stjórnarmeirihluta.